Meiðsli í handknattleik karla á Íslandi.

Til baka
Höfundur: Elís Þór Rafnsson
 
Inngangur:

Þrátt fyrir ríka hefð fyrir handknattleik hér á landi, og mikinn almennan áhuga, þá hafa engar rannsóknir verið birtar á tíðni og eðli meiðsla í handknattleik á Íslandi.

Efni og aðferðir:

Markmið rannsóknarinnar var að kortleggja tíðni og alvarleika meiðsla í handknattleik karla á Íslandi, sem og þær leikaðstæður þegar meiðsli eiga sér stað. Rannsóknin var framskyggn. Í upphafi var 14 liðum úr tveimur efstu deildum karla boðin þátttaka í rannsókninni. 13 lið samþykktu þátttöku, en 6 lið skiluðu öllum gögnum, samtals 109 leikmenn og voru þau gögn notuð í úrvinnslu og niðurstöður. Notuð voru stöðluð skráningarblöð til að skrá meiðsli sem upp komu. Leikmenn sem meiddust skráðu meiðslin með hjálp sjúkraþjálfara, þjálfara og forráðamanna liðanna. Þjálfarar skráðu þátttöku leikmanna í æfingum og leikjum.

Niðurstöður:

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að alls voru skráð 86 meiðsli, 53 (61,6%) vegna slysa og 33 (38,4%) vegna álags. Tíðni meiðsla var 15.0 meiðsli á hverjar 1000 klst í keppni og 2.2 meiðsli á hverjar 1000 klst á æfingum. Hæst var hlutfall meiðsla í hnjám eða 24,4% af heildarfjölda meiðsla, þá á mjóbaki/spjaldhrygg/mjaðmagrind eða 17,2% og því næst ökklum og á fótum/tám 11,6% hvort. Hlutfall bráðra meiðsla var hæst í hnjám (26,4%) og hæst var hlutfall álagsmeiðsla á mjóbaki/spjaldhrygg/mjaðmagrind (33,3%). Algengustu áverkarnir urðu á liðböndum og sinum. Útileikmenn urðu hlutfallslega fyrir flestum meiðslum, en markverðir fæstum.

Ályktun:

Meiðslatíðni í handknattleik karla á Íslandi er svipuð og í sambærilegum eldri rannsóknum. Hins vegar vekur há tíðni áverka á mjóbaki/spjaldhrygg/mjaðmasvæði upp spurningar um þjálfunaraðferðir og undirbúning hjá íslenskum handknattleiksmönnum.

 

Skjöl tengd rannsókn: