RICE meðferð er ferli sem miðar að því að hindra bráða blæðingu í vef eftir áverka. Örvefsmyndun í kjölfarið verður minni og líkur á langvarandi óþægindum minnka. Einnig styttir það endurhæfingartíma og viðkomandi nær fyrr bata. Ferlið samanstendur af fjórum þáttum.
Markmiðið með hvíld er að koma í veg fyrir frekari meiðsli og draga úr aðstreymi blóðs á áverkasvæðið. Eftir slys er því mikilvægt að hvíla og eftir áverka á neðri útlim ætti jafnvel að nota hækjur í nokkurn tíma til að draga úr álagi.
Mikilvæg fyrstu 48-72 klst
Sársauki er besti mælikvarðinn á álag
Hvíld er vanmetinn þáttur í bataferli almennt!!
Kæling er afbragðs skammtíma verkjastilling og hægir á aðstreymi blóðs. Bólgueyðandi áhrif kælingar eru þó minni en áður var talið. Hægt er að notast við margs konar kælingu s.s.: Ís, kælipoka, sprey, kalt vatn. Mikilvægt er að kæla ekki lengur en í 15-20 mínútur í einu vegna hættu á ofkælingu taugavefs.
Þrýstingur er mikilvægasti þáttur meðferðarinnar, blóðflæði undir þrýstingnum getur minnkað um allt að 95% á örfáum sekúndum! Vefja skal þéttingsfast með teygjanlegu bindi um áverkastaðinn og halda þrýstingi á í 48-72 klst eftir slys, jafnvel í lengri tíma. Varast ber þó að vefja of fast og fylgjast þarf með bólgu og verkjum viðkomandi. Hægt er að auka þrýstinginn staðbundið með kælipoka eða þrýstipúða.
Hálega er mikilvæg fyrstu mínúturnar eftir óhappið, lyfta þarf meiðslasvæði amk 30 cm upp fyrir hæð hjartans. Mælt með hálegu fyrstu 2 sólarhringana þegar setið er eða legið.