Klemmueinkenni í öxl (Impingement syndrome)
Öxlin er svokallaður kúluliður þar sem kúlan er efri endi upphandleggs og liðskálin, sem kúlan fellur inn í, er hluti af herðablaðinu. Sökum þess hve liðskálin er grunn miðað við lögun kúlunnar má segja að öxlin fórni stöðugleika sínum fyrir hreyfanleika. Öxlin reiðir sig því mikið á vöðvahóp sem umlykur hana og heldur kúlunni í liðskálinni. Nefnist vöðvahópur þessi einu nafni rotator cuff. Vöðvar liggja yfirleitt ofan á beinum en í öxlinni liggja rotator cuff vöðvarnir hins vegar milli beina þ.e. efri enda upphandleggs og hluta herðablaðsins sem nefnist axlarhyrna (acromion). Þessi uppröðun gerir liðinn útsettari fyrir svokallaðri klemmu (impingement) og einkennum sem þessari klemmu fylgja (impingement syndrome).
Orsakir
Klemmueinkenni í öxl eru álagseinkenni. Upphaf einkenna má yfirleitt rekja til endurtekinna smááverka, s.s. í íþróttum eða í líkamlega krefjandi vinnu, eða til langvarandi einhæfs álags í óhagstæðri líkamsstöðu, t.d. í tölvu- og skrifstofuvinnu.
Einkenni
Í fyrstu getur verið erfitt að lýsa verknum eða staðsetja hann nákvæmlega en með tímanum verður hann oft staðbundinn við framanverðan eða utanverðan axlarliðinn. Óþægilegt getur verið að bera hluti og sérstaklega að lyfta hlutum upp fyrir axlarhæð. Algengt er að fólk finni fyrir verkjum á nóttunni og óþægindum við að liggja á öxlinni. Önnur algeng einkenni eru máttminnkun og stirðleiki í öxlinni.
Almennar ráðleggingar
Mikilvægast er að minnka og/eða breyta álaginu sem öxlin verður fyrir og bæta starfsemi rotator cuff vöðvanna og annarra stöðugleikavöðva í kringum öxlina og herðablaðið.
Hægt er að minnka álagið á öxlina með því að lyfta handleggnum eins lítið upp fyrir höfuð og mögulegt er eða nota tröppu eða upphækkun ef nauðsynlegt er að sækja eitthvað sem er hátt uppi. Eins geta góðar svefnstöður hjálpað til ef verkir gera vart við sig að nóttu til (sjá mynd hér til hliðar).
Gott er að fá leiðbeiningar frá sjúkraþjálfara um hvaða æfingar henti best svo að meðferðin verði sem markvissust. Það tekur tíma að þjálfa upp vöðvana og er því mikilvægt að sýna þolinmæði og staðfestu við æfingar. Ef hins vegar lítið ávinnst á 12 vikum er ráðlegt að fá álit bæklunarlæknis um hvort þörf sé á frekara inngripi.
Heimildir
Texti
Myndir
Skrifað af Sólveigu Þórarinsdóttur sjúkraþjálfara.